Fara í efni

Fyrirkomulag Leikskóla Seltjarnaness í ljósi samkomubanns liggur fyrir og upplýsingar sendar til foreldra/forráðamanna

Frá því að yfirvöld settu á samkomubann sem þegar hefur tekið gildi hefur verið unnið hörðum höndum að útfærslu skipulagi skólahalds til að uppfylla tilmæli sóttvarnalæknis. Leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness hefur sent út meðfylgjandi tilkynningu um fyrirkomulagið hér á Seltjarnarnesi: 

Föstudaginn 13. mars 2020 settu sóttvarnarlæknir, fulltrúi almannavarna, forsætisráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra fram tilmæli um skipulag skólahalds næsta mánuðinn vegna þeirra stöðu sem nú er upp komin vegna Covid veirunnar. Sveitarfélögin í landinu sameinast um að samræma aðgerðir eins og kostur er og mun skólastarf fara fram með ákveðnum takmörkunum.

Eitt af því sem mikil áhersla hefur verið lögð á er að halda starfsemi skóla gangandi á sem öruggastan hátt, þ.e. börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin sem mest. Fjöldi barna í skólanum er því takmarkaður og fyrirkomulag leikskólastarfs verður endurskoðað reglulega á tímabilinu með tilliti til aðstæðna hverju sinni.

Fyrirkomulagið nú í upphafi verður sem hér segir:

  • Opnunartími Leikskóla Seltjarnarness verður frá kl. 8:00 – 16:15 m.a. til að koma í veg samneyti barna á milli deilda og aukinna þrifa. 
  • Börnin koma á sína deild að morgni og eru sótt þangað í lok dags. 
  • Frekari upplýsingar um móttöku barna koma frá deildarstjórum þar sem þær eru mismunandi eftir deildum og er mikilvægt að foreldar fylgi þeim fyrirmælum þannig að sem minnstur umgangur verði á milli fólks. 
  • Æskilegt er að, aðeins einn aðili komi með og sæki barnið.
  • Börnin koma annan hvern dag í leikskólann og er skipt upp í litla hópa á sinni deild. 
  • Starfsmannabörn koma alla daga og búið er að samræma daga fyrir systkini.

Fylgst verður vel með þeim breytingum sem kunna að verða á skólahaldi á næstunni og foreldrar upplýstir jafn óðum um framvinduna.

Til að allt gangi sem best er mikilvægt að við tökum öll höndum saman svo starf skólans geti farið fram af yfirvegun og æðruleysi. 

Með bestu kveðju,

Soffía Guðmundsdóttir

Leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness

16. mars 2020


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?