Í ljósi þess óvissustigs sem nú er í gildi vegna kórónaveiru (2019-nCoV) funduðu fulltrúar Almannavarnanefndar SHS í vikunni með neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar sem fær reglulega upplýsingar um stöðu mála.
Þann 31. janúar sl. var neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar kölluð saman í framhaldi af fundi Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins. Fundirnir voru haldnir að beiðni sóttvarnalæknis vegna þess óvissustigs sem nú er í gildi vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Tilgangurinn var að hefja strax undirbúning að viðbrögðum vegna veirunnar og virkja viðbragðsáætlanir.
Mánudagsmorguninn 3. febrúar komu þau Jón Viðar Matthíasson Slökkviliðsstjóri og Þóra K. Ásgeirsdóttir deildarstjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins svo á fund neyðarstjórnar Seltjarnarnesbæjar til að fara betur yfir stöðu mála. Þau áttu sambærilega fundi með neyðarstjórnum allra sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Á fundinum var fyrst og fremst verið að stilla saman strengi, tryggja að allir væru á sömu blaðsíðu er varðar óvissustigið, hvað í því felst og ef aðstæður myndu breytast til hins verra. Upplýsingamiðlun var rædd, með hvaða hætti hún ætti að vera sem og réttar boðleiðir og tengiliðir.
Neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar fær reglulegar upplýsingar frá fyrrgreindum aðilum um framvindu mála og bæði upplýsir viðeigandi aðila og/eða bregst við eins og þörf krefur og reglur segja til um í þessu ferli sem sóttvarnalæknir stýrir.
Bent er á heimasíðu Landlæknis https://www.landlaeknir.is/ en þar er að finna ítarlegar upplýsingar um kórónaveiruna, einkenni, forvarnir og fleira. Stöðugt uppfærð síða af hálfu Landlæknisembættisins.