Fara í efni

Frisbígolfvöllur opnaður á Nesinu

Fyrir þremur árum bar Pétur Már Harðarson upp þá hugmynd við Steinunni Árnadóttur garðyrkjustjóra að gerður yrði frisbígolfvöllur í Bakkagarði.
Fyrir þremur árum bar Pétur Már Harðarson upp þá hugmynd við Steinunni Árnadóttur garðyrkjustjóra að gerður yrði frisbígolfvöllur í Bakkagarði. Aðstæður í garðinum voru kannaðar en reyndust ekki hentugar meðal annars vegna nálægðar við íbúabyggð og málið féll niður af sjálfu sér. Pétur Már hefur verið yfirflokkstjóri hjá Seltjarnarnesbæ undanfarin sumur en hann er að hefja annað ár í sálfræði eftir að hafa lokið námi í íþróttafræði. 

Í samtali við Nesfréttir segir Pétur Már að Bjarni Torfi Álfþórsson hafi svo aftur hreyft við hugmyndinni í vor með nýja staðsetningu í huga eða á Valhúsahæðinni og í samráði við garðyrkjustjóra hafi honum verið falið að kanna þann möguleika. 
Pétur Már Harðarson
Pétur Már Harðarson gerir sig tilbúinn til að kasta disknum í fyrstu holu af níu

„Haukur Árnason, sem er helsti frumkvöðull frisbígolfs á Íslandi, var fenginn til skrafs og ráðagerða og í ljós kom að staðsetningin á Holtinu myndi henta vel. Félagi minn, Ásgeir Hallgrímsson, lagði fram teikningu, sem hann hafði unnið ásamt fleirum og sumarstarfsmenn áhaldahússins voru svo fengnir til að setja völlinn upp með mér. Þess var gætt að tekið væri tillit til allra þátta eins og fjarlæðar frá íbúabyggð, kirkjunni og verndaðra svæða á Holtinu. Fyrsta holan er staðsett á milli kirkjunnar og Víkurstrandar. Hringurinn liggur svo í kringum fótboltavöllinn og endar sunnan megin við kirkjuna. Þetta er tilvalið sport fyrir alla fjölskylduna, vinnustaði, einstaklinga og bara hvern sem er. Búnaðurinn er líka tiltölulega ódýr, en hægt er að kaupa sérstaka frisbígolfdiska eða nota þá sem maður á heima," segir Pétur Már.

Sigurður Kristinn Ingimarsson, Pétur Már Harðarson, Valtýr Bjarnason og Stefán Bjarnason
Sigurður Kristinn Ingimarsson, Pétur Már Harðarson, Valtýr Bjarnason og Stefán Bjarnason hafa unnið að því að koma frisbígolfvellinum upp í sumar og standa hér við holu níu. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?