Urtagarðurinn í Nesi er nú að hefja sitt sjöunda starfsár. Í garðinum eru til sýnis jurtir sem talið er að hafi verið ræktaðar í Nesi til nytja eða lækninga á árunum 1760 – 1834 eða nýttar af alþýðu manna til lækninga á sama tíma. Sumarið 2015 var bætt við jurtum sem nýlegar fornleifarannsóknir við Skriðuklaustur gefa til kynna að hafi verið ræktaðar þar á miðöldum. Þar á meðal er eintak af eplatré af fornum stofni sem fannst í nágrenni við Þrándheim og var flutt inn frá Noregi sérstaklega. Per Arvid Åsen, grasafræðingur frá Agder í Noregi og fræðimaður á sviði sögu klausturgarða á Norðurlöndum studdi faglega við þessa vinnu og var auk þess gestur á málþingi um rannsóknir á ræktun í klausturgörðum á Íslandi síðla sumars.
Garðurinn er alltaf opinn og yfir sumartímann hefur verið tekið á móti gestum í samstarfi við söfnin í Nesi, bæði Nesstofu og Lyfjafræðisafnið. Góðir gestir hafa sótt garðinn heim á liðnu ári og má þar vísa á umfjöllun í útvarpsþáttum Lísu Pálsdóttur á RÚV sem heitir Flakkarinn. Þar var fjallað nýverið um Nesstofu og Lyfjafræðisafnið. Ennfremur var fjallað um Valhúsahæð síðar í sama þætti og rætt við Vilhjálm Lúðvíksson og Áslaugu Sverrisdóttur. Í haust sótti maður að nafni Stephen Barstow garðinn heim og gerði honum ítarlega skil á vef sínum, sjá www.edimentals.com undir möppunni: The Herbal Garden of Nes (http://www.edimentals.com/blog/?page_id=2956). Stephen safnar upplýsingum um ræktun nytjajurta víða í heiminum og er þekktur fyrir umfjöllun um ræktun matjurta og nýtingu valdra skrautjurta einnig til matar. Það er ánægjulegt að sjá hve mikinn áhuga hann sýnir Urtagarðinum.
Á vegum Urtagarðsins hefur verið stutt við rannsóknir á ræktunarsögu Björns Jónssonar lyfsala í Nesi sérstaklega. Frá því garðurinn var stofnaður hefur Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur fundið ritaðar heimildir um ræktun í Nesi sem ekki var áður þekkt, m.a. að þar hafi verið ræktaðir berjarunnar og ávaxtatré strax á átjándu öld. Nú er stækkun á garðinum fyrirhuguð á sumri komanda og þá verður sýningin aðlöguð að breyttri þekkingu í ræktunarsögu Seltjarnarness. Gaman væri að sjá leikskóla og skóla Seltjarnarness sækja garðinn heim vor og haust og má benda á að Þjóðminjasafnið hefur útbúið fræðsluefni sem getur stutt við slíkar heimsóknir.
Lilja Sigrún Jónsdóttir, formaður stjórnar Urtagarðsins í Nesi.