Fara í efni

Fornminjar á byggingarreit hjúkrunarheimilis rannsakaðar

Til stendur að hefja uppgröft á fornminjum í túni Móakots, 7. júlí, en minjar fundust við gröft könnunarskurða í júní, á byggingarreitnum þar sem hjúkrunarheimilið á að rísa
Til stendur að hefja uppgröft á fornminjum í túni Móakots, 7. júlí, en minjar fundust við gröft könnunarskurða í júní, á byggingarreitnum þar sem hjúkrunarheimilið á að rísa. Samkvæmt Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra Seltjarnarness fundust minjar á þremur svæðum á túninu, sem nauðsynlegt er, samkvæmt lögum, að rannsaka til hlítar áður en byggingaframkvæmdir geta hafist.

Móakotstún

Þann 11. júní barst Minjastofnun greinargerð frá Fornleifastofnun þar sem helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar“, segir Ásgerður bæjarstjóri. „Alls var grafinn 31 skurður í túninu og dreifðust þeir nokkuð jafnt yfir það. Engin merki um fornleifar fundust í 12 skurðum, óveruleg merki fundust í 5 skurðum en miklar mannvistarleifar fundust í 15 skurðum. Byggt á þessum niðurstöðum er það mat Minjastofnunar að ráðast þurfi í frekari fornleifarannsóknir á þremur svæðum í túninu. Minjastofnun telur nauðsynlegt að rannsaka þessar minjar til hlítar, í þeim tilgangi að fá sem skýrasta mynd af gerð mannvirkja, umfangi, aldri og hlutverki og ber að beita til þess viðurkenndum, fornleifafræðilegum aðferðum.“

Ásgerður bendir á að Minjastofnun leggi því til að byrjað verði að afhjúpa svæðin, þ.e. að fjarlægja torf og yfirborðsjarðveg, en það ráðist svo af umfangi þeirra mannvirkja og annarra mannvistarlaga, sem þarna er að finna, hver endanleg stærð rannsóknarsvæðanna verður. „Þá fyrst er hægt að áætla kostnað við rannsóknirnar“, segir hún.

Ásgerður bendir á að heimatún á Íslandi hafa víða haldist óbreytt frá örófi alda og hafa þau mörg hver að geyma fjölda minja af ýmsu tagi, eins og útihús, gömul bæjarstæði og jafnvel bænhús, sem ekki eru sýnilegar á yfirborði. „Þótti líklegt að eins væri ástatt um heimatún Móakots“ segir hún, „sem reyndar er hluti af túni Ness við Seltjörn þar sem búseta hófst á landnámsöld. Af þeim sökum þótti Minjastofnun Íslands nauðsynlegt að kanna svæðið með tilliti til fornleifa.“

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?