Fara í efni

Félags- og barnamálaráðherra undirritar samninga við Seltjarnarnesbæ og Garðabæ vegna móttöku flóttafólks

í mars sl. tók bæjarráð Seltjarnarnesbæjar jákvætt í erindi félagsmálaráðuneytisins um móttöku á allt að 5 flóttamönnum frá Úganda síðar á þessu ári. Í gær var undirritaður samningur þess efnis við Seltjarnarnesbæ og Garðabæ en flóttamennirnir koma til landsins 12. september.

Eins og áður hefur verið kynnt tók bæjarráð Seltjarnarnesbæjar í mars sl. jákvætt í erindi félagsmálaráðuneytisins um móttöku á allt að 5 flóttamönnum frá Úganda síðar á þessu ári. Í gær undirritaði svo Félagsmála- og barnamálaráðherra, samning þess efnis við Seltjarnarnesbæ og Garðabæ. Um er að ræða samfélagslega ábyrgð sem bærinn telur rétt að axla og ætlar standa vel að þessu krefjandi verkefni en þetta er í fyrsta sinn sem Seltjarnarnesbær tekur á móti flóttafólki. Undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurra mánaða skeið í samvinnu við Rauða krossinn sem leiðir vinnuna.

Í fréttatilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu kemur fram að í heild er um að ræða 25 einstaklinga sem eru staðsettir í Kenía en koma frá Úganda, Rúanda, Kongó, Súdan og Simbabve. Hópurinn kemur til landsins 12. september. Er þetta í fyrsta sinn sem Garðabær og Seltjarnarnes taka á móti kvótaflóttafólki. Fyrirhugað er að Mosfellsbær taki einnig á móti hluta hópsins og er sveitarfélagið að gera það í annað sinn.

Um er að ræða einstaklinga sem hafa þurft að flýja heimalönd sín vegna kynhneigðar og er þetta í þriðja sinn sem íslensk stjórnvöld taka á móti hinsegin flóttafólki, en móttakan er í samvinnu við sveitarfélög og Rauða krossinn á Íslandi. Mikil ánægja hefur verið á meðal móttökusveitarfélaga með góðan árangur af móttöku þess. Samkvæmt samningunum er greidd framfærsla og sérstakur stuðningur vegna skólagöngu, íslenskukennslu, samfélagsfræðsla og túlkaþjónustu svo dæmi séu nefnd.

Hinsegin flóttafólki hefur fjölgað í heiminum en í dag  er samkynhneigð bönnuð samkvæmt lögum í yfir sjötíu löndum. Dauðarefsing vegna samkynhneigðar er hámarksrefsing í ellefu þeirra. Í ljósi sérstöðu hópsins var einnig undirritaður samningur við Samtökin 78 um ráðgjöf og fræðslu til flóttafólksins, sveitarfélaganna sem um ræðir og Rauða krossins á Íslandi og sjálfboðaliða þeirra.

Hinn 12. október síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin að tekið yrði á móti allt að 75 flóttamönnum árið 2019. Fyrri hópurinn kom til landsins í apríl en þá var tekið á móti 50 einstaklingum frá Sýrlandi og eru þeir nú búsettir á Hvammstanga, á Blönduósi og í Árborg. Ekki hefur verið tekið á móti fleiri flóttafólk síðan 1999 þegar tekið var á móti 75 einstaklingum frá Kosovo.     

„Það er fagnaðarefni að sveitarfélög séu jákvæð þegar kemur að því að taka á móti fólki á flótta. Frumkvæði sveitarfélaga og gott samstarf allra hlutaðeigandi aðila er ástæða þess að  vel hefur tekist til við móttöku flóttafólks á undanförnum árum,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Daníel E. Arnarsson, Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Einarsson og Magnús Örn Guðmundsson

Frá vinstri: Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?