Fara í efni

Eining og samstaða um fjárhagsáætlun næsta árs

Eining og samstaða ríkir um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, þriðjudaginn 15. desember og þykir niðurstaðan bera vitni um árangursríkt samstarf sem tekist hefur á með bæjarfulltrúum Seltjarnarnesbæjar á kjörtímabilinu
Eining og samstaða ríkir um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, þriðjudaginn 15. desember og þykir niðurstaðan bera vitni um árangursríkt samstarf sem tekist hefur á með bæjarfulltrúum Seltjarnarnesbæjar á kjörtímabilinu. Skuldahlutfall bæjarins er með því lægsta á landinu en það er núna komið undir 50% og fer lækkandi frá ári til árs.

Fókusinn settur á barnafjölskyldur
Ekki alls fyrir löngu boðaði bæjarstjórn Seltjarnarness fjórðungs lækkun leikskólagjalda frá og með næstu áramótum, en með því eru gjöldin ein þau lægstu á landinu öllu. Á sama tíma eru boðaðar enn frekari niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum, en þær nema núna kr. 75.000,-  Þá greiðir bæjarfélagið tómstundastyrki að upphæð kr. 50.000,- með öllum börnum á aldrinum 6 – 18 ára. Með þessum áherslum vill bæjarstjórn koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. 

Í fjárhagsáætlun 2016 er greint frá því að álagning fasteignagjalda í A-flokki verði 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verði langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%. Þá er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun að tekjur bæjarfélagsins nemi tæpum 2,5 milljarða króna og að rekstrarafgangur verði 16 milljónir króna.

Helstu framkvæmdir á Seltjarnarnesi á næsta ári felast í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis. Einnig stendur til að endurnýja gervigrasið á knattspyrnuvelli Íþróttafélagsins Gróttu ásamt því að sinna öðrum almennum viðhaldsframkvæmdum.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?