Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, fær sér iðulega heilsubótargöngu um Nesið ásamt eiginmanni sínum Kristjáni Guðlaugssyni og tekur þá gjarnan ferðamenn og aðra sem verða á vegi hennar tali. Á dögunum mættu þau nokkrum ferðamönnum á Vestursvæðunum sem voru að furða sig á fyrirbæri sem þar var, eða trönunum og fiskinum sem hékk þar á. Bæjarstjóri upplýsti ferðamennina um tilgang þess að hengja upp fisk og þennan gamla verkunarmáta en það kom þeim á óvart hversu stutt er síðan þessi verkun lagðist af á Nesinu.
Hjallar og/eða trönur, eins og við köllum það, eru settar saman með ákveðnum hætti. Hér áður fyrr voru trönur m.a. á Vestursvæðum og upp á Valhúsarhæð. Marga rekur eflaust minni til þess að hafa séð trönurnar fullar af skreið, en þá skipti miklu máli að þær væru vel byggðir svo þær gætu borið allan þann þunga sem lagður var á þær. Helstu fisktegundir sem nýttar voru til herslu á Nesinu hér áður fyrr voru þorskur, ufsi og keila.
Á myndunum má sjá bæjarstjórahjónin, forvitinn ferðalang sem á vegi þeirra varð og gamla mynd af drekkhlöðnum trönum.