Blásið verður til Barnamenningarhátíðar Seltjarnarness fimmtudaginn 27. apríl og eru allir boðnir velkomnir. Hátíðin fer fram á Eiðistorgi, í Bókasafninu og Gallerí Gróttu en um eitt hundrað börn koma fram á hátíðinni eða leggja henni lið á einn eða annan máta.
Eiðistorgið verður fært í sérstakan hátíðarbúning en það er forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem mun setja hátíðardagskránna formlega kl. 17. Kynnir er sjónvarpskonan kunna Sigyn Blöndal.
Hátíðin hefst með formlegum hætti þegar sýningin Þetta vilja börnin sjá! Verður opnuð í Gallerí Gróttu kl. 10 um morguninn. Þar getur að líta myndir eftir 24 myndskreyta úr 32 barnabókum sem komu út árið 2016. Frá klukkan 15 verður hægt að fylgjast með 3D prentun frá Hlutprent í Bókasafinu og á sama tíma hefst þar Vísindasmiðja Háskóla Íslands og stendur til kl. 17. Í Gallerí Gróttu verður svo hægt að fylgjast með blöðrulistamanni leika listir sínar frá kl. 17.
Megin hátíðardagskráin verður á Eiðistorgi frá kl. 17. Þar verður Húlladúllan með sýnikennslu og trúður skemmtir gestum á torginu. Í tilefni af 50 ára afmæli íþróttafélagsins Gróttu verða skreytingar á torginu með myndum af félagsmönnum frá öllum tímum.
Á torginu verður líf og fjör frá kl. 17-19. Þar troða upp Lúðrasveit Seltjarnarness, stór hópur ungra flautuleikara og söngvara úr Tónó, stúlknabandið Stjúpmæðurnar sem urðu í 2. sæti söngkeppni MH, Freestyle dansarar úr Való, Samféskeppendur og að lokum troða elstu bekkingar grunnskólans upp með atriði úr Bugsy Malone.
Ísbúðin Arna býður öllum börnum upp að 15 ára aldri upp á ókeypis ís frá kl. 17-19.