Fara í efni

Barnamenningarhátíð á Seltjarnarnesi hefst í dag

Eflaust eiga vegfarendur á Seltjarnarnesi eftir að reka upp stór augu upp úr hádegi þegar ógnarlangur dreki mun liðast í fylgd eigenda sinna frá Leikskóla Seltjarnarness út á Eiðistorg.
Barnamenningarhátíð á SeltjarnarnesiEflaust eiga vegfarendur á Seltjarnarnesi eftir að reka upp stór augu upp úr hádegi þegar ógnarlangur dreki mun liðast í fylgd eigenda sinna frá Leikskóla Seltjarnarness út á Eiðistorg. Drekinn er allur hinn glæsilegasti en börnin á leikskólanum hafa unnið að gerð hans undanfarnar vikur og verður hann til sýnis á Eiðistorgi í tilefni af Barnamenningarhátíð Seltjarnarness sem hefst í dag. 

Hugmyndasmiðir drekans munu ganga með hann fylktu liði  kl. 14 í dag og verður hann hengdur upp á miðju Eiðistorgi þannig að allir bæjarbúar fái hans notið næstu vikuna en uppsetning drekans markar upphaf Barnamenningarhátíðarinnar. Snemma í morgun byrjuðu leikskólabörn og grunnskólabörn að myndskreyta Eiðistorg hátt og lágt og verður því lokið þegar viðburðadagskráin hefst þar kl. 16:30. Það er bæjarlistamaður Seltjarnarness, Elsa Nielsen, sem hefur unnið með nemendum í leik- og grunnskólum að sýningunni á Eiðistorgi undanfarna daga. 

Villi naglbítur, lúðrasveit verkalýðsins og Sirkussmiðja
Dagskráin í dag verður fjölbreytt en henni stýrir Villi naglbítur. Valhýsingar sýna atriði úr Hárinu auk þess sem framlag Tónlistarskóla Seltjarnarness til Nótunnar verða flutt. Lúðrasveit verkalýðsins undir stjórn Kára Húnfjörð Einarssonar leikur á Eiðistorgi og í Bókasafninu verður börnum boðið upp á Sirkussmiðju með Sirkus Íslands auk þess sem andlitsmálun verður á Eiðistorgi. Hátíðahöldin standa til kl. 19.
Á Bókasafninu verður lögð sérstök áhersla á að kynna fjölbreyttar barnabækur alla næstu viku með áherslu á sól, sumar, vináttu og leiki en þar verður einnig kynning á sumarlestri, sem jafnan er vinsæll meðal yngri gesta safnsins. 

Miðvikudaginn 27. apríl lýkur Barnamenningarhátíð á Seltjarnarnesi með fjölbreyttri tónlistar- og upplestardagskrá í bókasafninu. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?