Fara í efni

Barnamenningarhátíð á Seltjarnarnesi

Barnamenningarhátíð á Seltjarnarnesi verður haldin hátíðleg 20.-27. apríl og er stefnt að því að hún verði árviss viðburður. Hátíðin er haldin á sama tíma á Nesinu og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Barnamenningarhátíð á SeltjarnarnesiBarnamenningarhátíð á Seltjarnarnesi verður haldin hátíðleg 20.-27. apríl og er stefnt að því að hún verði árviss viðburður. Hátíðin er haldin á sama tíma á Nesinu og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mun barnamenning ráða ríkjum í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ þar sem boðið verður upp á fjölda viðburða tengdum barna- og unglingamenningu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Setning Barnamenningarhátíðar á Seltjarnarnesi fer fram miðvikudaginn 20. apríl á Eiðistorgi og á Bókasafninu. Bæjarlistamaður Seltjarnarness, Elsa Nielsen, hefur unnið með nemendum í leik- og grunnskólum að sýningum sem verða opnaðar á Eiðistorgi og standa yfir alla hátíðina. Við opnunina flytja Valhýsingar tónlistaratriði úr leiksýningunni Hárinu auk þess sem framlag Tónlistarskóla Seltjarnarness til Nótunnar verða flutt og lag grunnskólanema sem fór í Samfés söngkeppnina. 

Lúðrasveit verkalýðsins undir stjórn Kára Húnfjörð Einarssonar leikur á Eiðistorgi en kynnir er hinn vinsæli skemmtikraftur Villi naglbítur. Í Bókasafninu verður börnum boðið upp á Sirkussmiðju með Sirkus Íslands og andlitsmálun verður á Eiðistorgi. Hátíðahöldin hefjast kl. 16:30 og standa til kl. 19. 

Alla hátíðina er lögð sérstök áhersla á að kynna fjölbreyttar barnabækur með áherslu á sól, sumar, vináttu og leiki í Bókasafninu en þar verður einnig kynning á sumarlestri, sem jafnan er vinsæll meðal yngri gesta safnsins. 

Hátíðalok
Barnamenningarhátíðinni lýkur miðvikudaginn 27. apríl en þá kemur verðlaunahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir í Bókasafnið og les úr vinsælum barnabókum sínum. Elstu börn leikskólans syngja sumarlög undir stjórn Ólafar Maríu Ingólfsdóttur og Bókasafn Seltjarnarness og Skólabókasafn Grunnskóla Seltjarnarness veita verðlaun fyrir þátttöku í Bókaverðlaunum barnanna. 



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?