Fara í efni

Bæjarstjórar og borgarstjóri hjóluðu saman

Bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu fóru saman í hjólreiðatúr á hjólreiðadaginn þ.20. september ásamt borgarstjóra en leið þeirra lá frá Þinghóli í Kópavogi gegnum Fossvogsdalinn áleiðis í Elliðaárdal.

Bæjarstjórunum og borgarstjóra var ætlaður klukkutími til að hjóla frá Þinghóli í Elliðaárdal en mannskapurinn virtist í ágætu formi því að komið var á leiðarenda eftir rúmlega hálftíma. Bauð borgarstjóri ferðafélögum sínum heitt kakó og kleinur áður en hann afhjúpaði skilti með leiðakorti yfir göngu- og hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu. Samskonar kort mun verða sett upp á Seltjarnarnesi inna tíðar. Þau sýna leiðakort af viðkomandi svæði öðrum megin og yfirlitskort af höfuðborgarsvæðinu hinum megin. Til að auðvelda göngu- og hjólreiðafólki að rata er vísað á staðsetningu annarra skilta. Skiltin eru öll með krotfilmu til varnar skemmdum.

Þátttakendur í hjólreiðaferðinni voru þau Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ; Gunnar Valur Gíslason, bæjarstjóri Álftaness, Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi; Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði; Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ; Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri í Reykjavík.

Hjólreiðadagurinn er liður í dagskrá Evrópskrar samgönguviku 2004 en meginþema hennar er Öryggi barna í umferðinni.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?