Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017, sem lagður var fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar, miðvikudaginn 11. apríl 2018, lýsir mjög sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Rekstarafgangur fyrir óreglulega liði nam 38 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 34 millj. kr. rekstrarafgangi. Eingreiðsla bæjarins til Lífeyrissjóðsins Brúar á árinu 2017, var verulegt högg fyrir bæjarsjóð og því varð rekstrarniðurstaða ársreiknings lakari um þær 176 millj.kr sem gjaldfærsla Brúar nemur, niðurstaða ársreikningsins var því tap að fjárhæð 99 millj.kr. Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar gerði samkomulag um uppgjör við Brú,, uppgjörið miðaðist við tryggingafræðilega stöðu sjóðsins 31.05.2017, samkvæmt samkomulagi við sjóðinn nemur heildarframlag sveitarfélagsins og stofnana þess 644 mkr. Um er að ræða framlög í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð. Gjaldfærslan vegna Brúar var gjaldfærð strax árið 2017 og nam 176 mkr. er færð meðal launa og launatengdra gjalda á árinu 2017. Greiðsla heildarframlagsins átti sér svo stað í upphafi árs 2018 og fjármagnaði sveitarfélagið uppgjörið með lántöku.
Skatttekjur nema um 81% af tekjum sveitarfélagsins. Veltufé frá rekstri nam 350 millj. kr. sem er hækkun frá árinu 2016. Í árslok 2017 voru íbúar Seltjarnarnesbæjar 4.590 og hafði fjölgað um 3%.
Rekstur málaflokka er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun eins og rekstrarniðurstaða gefur til kynna og vil ég þakka stjórnendum bæjarins fyrir gott samstarf á liðnu ári. Stærstu málaflokkarnir eru fræðslumál, félagsþjónustu og æskulýðs- og íþróttamála.
Kennitölur í rekstri bera vott um mjög trausta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Skuldahlutfall er 59% og svokallað skuldaviðmið 46%. Eiginfjárhlutfall nemur 66% í árslok. Fjárfesting nam 22% í hlutfalli við rekstrartekjur. Fjárfestingar á árinu námu rúmlega 882 millj. kr. og hafa aldrei verið meiri. Helstu framkvæmdir voru við hjúkrunarheimilið, sem námu samtals um 565 millj. kr., stækkun íþróttamiðstöðvar 60 millj. kr., gatnaframkvæmda og ýmissa annarra smærri framkvæmda.
Lántaka á árinu 2017 nam 0 krónur, en gert er ráð fyrir lántöku á árinu 2018 til að mæta framkvæmdum ársins 2018, m.a. hjúkrunarheimilis, íþróttamiðstöðvar og greiðslu til Lífeyrissjóðsins Brúar .
Sterk og ábyrg fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er undirstaða þess að Seltjarnarnesbær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við nýja íbúa samhliða uppbyggingu á nýju hverfi við Bygggarða. Í dag er verið að skoða áform um að byggja nýjan leikskóla, sambýli fyrir fatlað fólk. Auk þess sem áfram verður unnið að gatnagerð og endurnýjun lagna og gangstétta í eldri hverfum bæjarins.
Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar verður tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 9. maí nk.