Fjölmenni var viðstatt hóf í Bókasafni Seltjarnarness í tilefni af 130 ára afmæli þess föstudaginn 20. nóvember en sjálfan afmælisdag safnsins, 21. nóvember, má rekja til fyrsta fundar Lestrarfélags Framfarafélags Seltirninga árið 1885.
Fjölmenni var viðstatt hóf í Bókasafni Seltjarnarness í tilefni af 130 ára afmæli þess föstudaginn 20. nóvember en sjálfan afmælisdag safnsins, 21. nóvember, má rekja til fyrsta fundar Lestrarfélags Framfarafélags Seltirninga árið 1885.
Í tilefni tímamótanna kom Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri færandi hendi og afhenti Bókasafninu hálfa milljón króna sem safninu er ætlað að verja til kaupa á nýju og metnaðarfullu efni fyrir unglinga. Með framlaginu vill bærinn styrkja enn frekar þá áherslu á bóklestur ungmenna, sem lögð hefur verið áhersla á í safninu, en fyrr á árinu var þar opnuð ný og glæsileg unglingadeild með sérhönnuðum húsgögnum. Einnig fylgdi bókagjöfinni vandaðar hillur undir efnið. Ennfremur færði bæjarstjóri safninu nýtt hljóð- og hátalarakerfi sem hentar jafnt til ræðuhalda og tónlistarflutnings. Við afhendinguna vakti Ásgerður athygli á samfélagslegu mikilvægi Bókasafnsins og því hversu menningarstarfið á Seltjarnarnesi hefði tekið miklum stakkaskiptum undanfarin ár, við mikla ánægju bæjarbúa eins og kannanir Capacent bera vott um. Gjafirnar staðfestu mikilvægi Bókasafnsins sem helsta menningarmiðstöð bæjarbúa og þá ósk að sem flestir fengju notið þess að sækja það heim.
Heiðursgestur dagsins var Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður og fyrrum forstöðumaður Bókasafns Seltjarnarness, sem flutti erindi um kynni sín af bókasafninu þegar hún var barn að aldri og hvernig þau kynni þróuðust í það að hún varð síðar forstöðumaður Bókasafnsins. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður flutti erindi um lestrarfélög og Soffía Karlsdóttir sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarness rifjaði upp atvik frá fyrstu fundum Lestrarfélagsins.
Gestir á afmælinu þáðu afmælisköku og fleira og félagar úr Selkórnum, undir stjórn Signýjar Sæmundsdóttur, sungu og finnski píanóleikarinn Anni Rorke lék á flygilinn. Í tilefni tímamótanna stendur nú yfir í Bókasafninu sýning á gömlum ljósmyndum úr fórum safnsins og til sýnis eru sumir fágætir gripir úr eigu gamla Lestrarfélagsins. Efnt var til happdrættis í tilefni dagsins og hlutu þrír heppnir gestir nýjar bækur í verðlaun.
Næstu daga verður afmælisveislunni haldið áfram með dagskrá þar sem höfundar koma í heimsókn en nánar má sjá dagskrána á síðu Bókasafns Seltjarnarness