Fara í efni

Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Seltjarnarness

1. Menningarnefnd Seltjarnarness veitir ár hvert listamanni sem búsettur er á Seltjarnarnesi nafnbótina Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Nafnbótinni fylgir starfsstyrkur í samræmi við fjárhagsáætlun bæjarins ár hvert.

2. Útnefning bæjarlistamanns Seltjarnarness er gerð í þeim tilgangi að efla áhuga bæjarbúa og annarra á listum og listsköpun innan bæjarfélagsins og um leið að vekja athygli á þeim listamönnum sem búa og jafnvel starfa á Seltjarnarnesi.

3. Auglýst skal með hæfilegum fyrirvara á miðlum Seltjarnarnesbæjar og þeim bæjarblöðum sem út koma hverju sinni. Umsóknum og/eða ábendingum skal skilað á rafrænu formi í gegnum Mínar síður á seltjarnarnes.is fyrir 25. nóvember ár hvert.

4. Bæjarlistamaður skal tilnefndur í upphafi nýs árs eða eins fljótt og auðið er í samráði við viðkomandi listamann. Listamaðurinn skal bera titil þess árs sem nýhafið er.

5. Listamenn, sem hafa framfæri af list sinni að einhverju eða öllu leyti og eiga lögheimili á Seltjarnarnesi, eiga rétt á að sækja um nafnbótina og starfsstyrkinn hverju sinni. Í umsókninni komi fram upplýsingar um náms- og/eða starfsferil viðkomandi og á hvern hátt listamaðurinn hugsi sér að láta Seltirninga njóta listar sinnar.

6. Þegar umsóknir eru metnar skal tekið mið af þeim viðurkenningum sem umsækjanda hafa hlotnast og útbreiðslu verka hans.

7. Menningarnefnd áskilur sér rétt til að listamaðurinn leyfi Seltirningum að njóta listar sinnar í samráði við Seltjarnarnesbæ a.m.k. einu sinni á því ári sem hann ber nafnbótina bænum að kostnaðarlausu. T.d. með sýningar- eða tónleikahaldi í samstarfi við bæinn, félög bæjarins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn sem koma fram á Seltjarnarnesi. Menningarnefnd útvegar viðeigandi húsnæði til listviðburða ef þörf er á.

8. Í lok árs skal bæjarlistamaður gera menningarnefnd stuttlega grein fyrir því á hvern hátt Seltirningar hafa notið listar hans á því ári sem er að líða.

9. Menningarnefnd mælist til þess að "Bæjarlistamaður Seltjarnarness" endurspegli góð gildi, veki athygli á nafnbótinni sem víðast og stuðli þannig sem bæjarlistamaður að jákvæðri ímynd bæjarfélagsins.

 

Samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarness 26. mars 2003 með síðari breytingum 15. desember 2004, 9. nóvember 2005 og 8. júní 2011, 4. september 2014 og 26. október 2022.

Síðast uppfært 16. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?